Mótmælendur á samstöðufundi sem haldinn var á bökkum Ölfusár síðdegis í dag lokuðu fyrir umferð á Ölfusárbrú í lok fundarins.
Hátt í þúsund manns voru á fundinum en þar var mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði á fjárlögum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Á sama tíma funduðu sveitarstjórnarmenn með heilbrigðisráðherra og þingmönnum á Riverside við árbakkann.
Í fundarlok gengu mótmælendur upp á brúna og lokuðu henni í rúmar fimmtán mínútur.
Mótmælin fóru friðsamlega fram enda var ítrekað í fundarboði að um samstöðufund væri að ræða en ekki hávaðasöm mótmæli. Lögreglan var á staðnum en hafði engin afskipti af mótmælendunum.