Bæjaryfirvöld í Árborg ákváðu að gefa jákvæða umsögn vegna leyfisveitingar fyrir heimagistingu í íbúðarhúsinu að Skólavöllum 7 á Selfossi, þrátt fyrir mótmæli frá íbúum í nærliggjandi húsum í tveimur götum.
Það er sýslumanns að veita leyfið í slíkum tilfellum og leitar hann umsagnar ýmissa aðila, allt eftir því hvernig gistirými er sótt um.
Í því tilfelli sem umræðir að Skólavöllum er sótt um að heimiluð sé heimagisting, og þarf slík þjónusta ekki að eiga sér staða á þjónustu- eða atvinnusvæði innan marka skipulagsreglna.
„Sveitarfélagið taldi sig ekki geta sett sig upp á móti þessu,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar. „Þetta er ekki í andstöðu við neinar reglur og því ekki rök fyrir því að veita ekki jákvæða umögn,“ segir hún. Þá hafi slík leyfi verið veitt annarsstaðar og neitun mögulega kallað á málaferli. Samstaða var um málið innan nefnda og ráða bæjarins.
Mikil aukning umsókna
Ásta segir að erindi berist reglulega þar sem óskað er eftir umsögn vegna gistihúsnæðis. „Það er raunar mikil aukning í því, og við afgreiðum af jafnaði eitt til tvö slík erindi á hverjum bæjarráðsfundi,“ segir Ásta. Þar er um að ræða margs konar gistimöguleika, svo sem heimagistingu, gistiheimili, sumarhús til útleigu og annað sem talið er geta veitt tekjur af auknum ferðamannastraumi. Ásta segir að ef fólk verði fyrir verulegu ónæði af slíkri starfsemi í íbúðarhverfum sé einfaldlega hægt að leita til lögreglu.