Sveitarstjórn Rangárþings ytra mótmælir harðlega fyrirhugaðri lokun pósthússins á Hellu og krefst þess að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur ohf dragi þessar fyrirætlanir til baka.
Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar sem er gerð í kjölfarið á því að Íslandspóstur tilkynnti lokun pósthússins á Hellu frá og með 1. maí.
„Sjálfsafgreiðsla með pósthólfum og heimsendingum er auðvitað í takt við tímann og getur verið ágæt þjónusta út af fyrir sig en pósthús er áfram mikilvæg lífæð almennrar þjónustu í hverju samfélagi. Við mótmælum einnig kröftuglega að störf séu færð til og að eina tilboð Íslandspósts ohf til núverandi starfsfólks pósthússins hér sé boð um að sækja vinnu í næstu byggðalög. Störf án staðsetningar hljóta að koma til greina til eflingar starfsstöðvar Póstsins hér á Hellu auk þess sem póstbílar, sem nú eiga að taka að stærstum hluta við hlutverki pósthúss, hljóta að geta átt sína heimastöð hér, í stað þess að gera ávallt út frá dreifingarmiðstöð í næsta byggðarlagi,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem hvetur forsvarsfólk Póstsins eindregið til að endurmeta þessa ákvörðun.