Breyttur opnunartími Sundlaugar Stokkseyrar og fyrirhuguð vetrarlokun hennar leggst illa í íbúa við ströndina sem skrifuðu margir hverjir undir mótmæli sem send hafa verið Sveitarfélaginu Árborg.
Frá 1. september verður laugin aðeins opin á þriðjudögum og fimmtudögum frá 16:30 til 19:30 og á laugardögum frá 12-15. Laugin hefur verið opin alla daga vikunnar hingað til yfir vetrartímann. Frá og með 1. nóvember verður lauginni síðan lokað og opnar aftur 1. mars. Breytingarnar eru liður í sparnaðaraðgerðum sveitarfélagsins.
Um að gera að láta í sér heyra
Selfyssingurinn Magnús Þór Bjarnason sættir sig illa við þetta og hann stóð fyrir undirskriftasöfnun við ströndina í sumar, til þess að mótmæla breytingunum og þar eru bæjaryfirvöld hvött til að hafa opnunartímann óbreyttan.
„Ég fer mjög oft í sund og fer eiginlega alltaf á Stokkseyri. Það er alltaf svo mikið af fólki í lauginni á Selfossi, aldrei pláss í pottunum en það eru færri á Stokkseyri og mér finnst það þægilegra. Það sem gerist líka ef þeir loka á Stokkseyri er að þá verður bara enn meiri troðningur á Selfossi,“ sagði Magnús í samtali við sunnlenska.is.
„Ég veit ekki alveg hvað undirskriftirnar voru margar. Listarnir lágu í sundlauginni á Stokkseyri og í sjoppunum á Stokkseyri og Eyrarbakka og þetta voru nokkur útfyllt A4 blöð. Fólk vill mótmæla þessu. Það voru nokkrir eldri borgarar við ströndina sem sögðu við mig að þó að þeir fengju frítt í sund þá væru þeir alveg til í að borga hálfvirði til þess að halda lauginni opinni,“ segir Magnús og bætir við að hann voni að mótmælin munu skila árangri.
„Ég veit um dæmi þess að undirskriftalistar hafi skilað árangri. Við skulum vona að minn listi geri það, það er samt ekki gott að segja, en það er um að gera að láta í sér heyra ef maður er óánægður.“
Listinn sendur með ábyrgðarpósti
Undirskriftasöfnuninni lauk í júlí en Magnúsi hefur ekki gengið vel að ná í Fjólu Kristinsdóttur bæjarstjóra eða Braga Bjarnason formann bæjarráðs til að afhenda þeim listana.
„Nei, það gekk ekki vel og ég get ekki verið að eltast endalaust við þau. Þau voru ekkert að svara mér og Bragi frestaði því að hitta mig í dag. Þannig að ég ákvað bara að senda þeim listana í ábyrgðarpósti og stílaði umslagið á Fjólu. Ég vildi ekki leggja þetta inn í ráðhúsið því þá yrði þessu örugglega stungið ofan í skúffu. Það er kannski einhver möguleiki að Fjóla skoði þetta, hún fær að minnsta kosti ekki mitt atkvæði aftur ef opnunartímanum verður breytt,“ sagði Magnús ákveðinn að lokum.