Fangavarðafélag Íslands mótmælir harðlega þeim niðurskurðarhugmyndum sem koma fram á minnisblaði dómsmálaráðherra sem lagt var fyrir fjárlaganefnd Alþingis í gær.
Í mótmælabréfi sem Fangavarðafélag Íslands sendi Alþingi, Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og Páli W. Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar Íslands í kvöld segir að vegna álags á fangaverði, eins og staðan er í dag, séu slíkar hugmyndir ekki til að létta á áhyggjum fangavarða af stöðu mála.
„Að hafa áhyggjur af verkefnum dagsins er nóg, þó ekki þurfi einnig að hafa áhyggjur af starfsöryggi sínu vegna mögulegra uppsagna á aðventunni,“ segir í mótmælum fangavarðafélagsins, sem skorar á fangelsismálastjóra, dómsmálaráðherra og Alþingi að tryggja strax, bæði starfsöryggi fangavarða og öryggi í fangelsum landsins.
Fangavarðafélag Íslands sendi frá sér áskorun í janúar síðastliðnum vegna ástands öryggismála í fangelsunum og að sögn stjórnar félagsins kemur fram að ástandið hafi bara versnað síðan þá.
Sogni lokað um áramótin?
Fangaverðir eru mjög uggandi yfir stöðu mála í en í minnisblaði dómsmálaráðherra kemur meðal annars fram að ef ekki komi til auknar fjárheimildir fyrir árið 2023 og fjárauki fyrir yfirstandandi ár verði fangelsinu að Sogni varanlega lokað um næstu áramót. Það hefði í för með sér að tólf fangaverðir missa vinnuna og 21 fangelsispláss hverfi úr notkun.
Sömuleiðis yrði hús 3 á Litla-Hrauni lokað allt árið 2023 og 4-5 starfsmenn myndu missa vinnuna eða ekki fá framhaldsráðningu. Þar myndu 23 fangelsispláss hverfa, boðunarlisti lengjast og fyrningar refsinga aukast. Þetta myndi þýða þreytu hjá starfsfólki, minni starfsánægju auk þess sem öryggismál fangelsanna yrðu áfram í ólestri.