Síðastliðin þrjú vor hafa félagar í ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinum plantað trjám og dreift áburði á svæði suður af Sultartangalóni undir stjórn Hreins Óskarssonar verkefnisstjóra Hekluskóga í samvinnu við Landgræðslu ríkisins.
Árangurinn er ótrúlegur og er birkið sem gróðursett var vorið 2009 orðið allt að 50 cm trjám í dag. Áburði var dreift vorin 2009 og 2010 og er nú orðið gróið land og tilbúið undir birkiskóg. Eftir uppgræðsluferð vorið 2011 kom upp hugmynd að fá fleiri mótorhjólafélög til að græða upp landið norðan þjóðvegarins frá Þjórsárbrúnni við Sultartangavirkjun og að Ferjufit norður að Sultartangalóni (sjá loftmynd að neðan).
Fengið var leyfi hjá sveitarfélaginu Rangárþingi Ytra og Hekluskógum til að nefna verkefnið Mótorhjólaskóg og var nokkrum mótorhjólafélögum boðið að vera með í því. Félögin auk Slóðavina sem taka þátt í verkefninu eru BMW Íslandi, Ernir á Suðurnesjum, HOG chapter Iceland, Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar og Skutlur kvennaklúbbur.
Þann 19. maí nk. kl. 14 ætla þessi mótorhjólafélög á að vígja „Mótorhjólaskóginn“, við veginn sem örin bendir á á myndinni hér að neðan.
Fleiri forvitnileg verkefni tengjast Mótorhjólaskóginum en Víðir Sigurðsson, kvikmyndagerðarmaður, er að framleiða heimildarmynd um verkefnið. Víðir gerir ráð fyrir að myndin taki allt að tíu ár í framleiðslu en hann telur að þetta sé í fyrsta skipti sem fylgst er með uppgræðslu á vissu svæði frá eyðimörk að „hugsanlegum skógi“.