Ár hvert er marsmánuður tileinkaður körlum og krabbameinum í Mottumars, árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélags Íslands. Nú er sjónum beint að algengasta krabbameini hjá körlum, krabbameini í blöðruhálskirtli.
Safnað er fyrir Karlaklefanum, vefgátt fyrir karla, þar sem finna má upplýsingar um allt sem viðkemur karlmönnum og krabbameinum. Seldir verða sokkar í rakarastofustíl til styrktar átakinu 5.-19. mars.
Fram til þessa hefur yfirvaraskegg verið allsráðandi í Mottumars. Síðustu ár hefur áhugi karlmanna á að safna yfirvaraskeggi dvínað og þátttaka í Mottukeppninni farið minnkandi. Því var tekin ákvörðun um að hvíla mottuna í ár.
„Markmiðið með breytingunni er að gera báðum kynjum kleift að sýna stuðning í verki og taka þátt í Mottumars. Sokkar í rakarastofustíl voru það sem okkur fannst passa öllum, enda augljós skírskotun í karlmennskuna og yfirvaraskeggið” segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
„Við fögnum hins vegar öllum karlmönnum sem láta sér vaxa yfirvaraskegg og hvetjum þá til að senda okkur myndir af sér. Þær munum við birta, enda mottan alls ekki horfin þó hún sé ekki í forgrunni í ár.“
Sokkarnir verða meðal annars seldir í vefverslun Krabbameinsfélagsins, Apótekaranum, Blómavali, Bónus, Byko, Geysi, Heilsuhúsinu, Lyfju, Nettó, N1, Olís, Póstinum og Samkaupum.