Lögreglan á Suðurlandi og almannavarnir fengu tilkynningu í gær um að Múlakvísl væri að grafa í sundur veginn við Afréttisá, sem liggur upp í Þakgil.
Lögreglumenn frá Vík fóru á vettvang auk starfsmanna frá Vegagerðinni. Gerð var hjáleið á staðnum á meðan viðgerð á veginum átti sér stað en henni lauk um klukkan þrjú í nótt. Vegurinn um svæðið er nú öruggur yfirferðar samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þá verður hafist handa í dag við að búa til varnarvegg til að hindra frekari skemmdir.
Líkt og fram hefur komið hefur rafleiðni mælst í Múlakvísl sökum þess að jarðhitavatn blandast ánni. Brennisteinslykt hefur fundist við ána og gasmælar við Láguhvola hafa sýnt aukið gasútstreymi. Atburður sem þessi er þekktur á þessu svæði en ferðamenn eru beðnir að gæta varúðar á svæðinu.