Miklir vatnavextir eru í Múlakvísl og náði áin í gær að brjóta sig í gegnum varnargarð við ána. Rafmagnsmastur frá Rarik var í garðinum og féll hann í ána þegar garðurinn brast.
Áður en þetta gerðist tók Rarik rafmagn af línunni, en engar rafmagnstruflanir urðu vegna þessa.
Mikið er búið að rigna á Suður- og Suðausturlandi um helgina. Vegagerðarmenn fylgdust með Múlakvísl í gær eftir að vaxa tók í ánni. Mikið reyndi á varnargarð sunnan við brúna og þegar sýnt þótti að garðurinn myndi fara ákvað Rarik að taka rafmagn af línu sem liggur yfir ána.
Rafmagnslínan yfir Múlakvísl fór þegar brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist snemma í sumar. Rarik setti upp bráðabirgðalínu í kjölfarið, en sú lína byggðist á mastri sem sett var upp í varnargarði við ána. Það var þessi garður sem brast í gær og þar með féll mastrið í ána.
Örlygur Jónasson, hjá Rarik, segir í samtali við mbl.is að engar rafmagnstruflanir hafi orðið þrátt fyrir að línan hafi farið. Lína sé notuð til að flytja rafmagn milli Víkur og Klausturs, en notendur fái nú rafmagn annars staðar að. Línan sé fyrst og fremst notuð ef aðrar bilanir verði á kerfinu.
Örlygur segir að vegagerðarmenn hafi ekkert getað gert í gær vegna þess hversu mikið vatn var í Múlakvísl. Hann segir að lögð verði ný rafmagnslína yfir Múlakvísl þegar aðstæður leyfi.
Múlakvísl rennur núna um mun meira svæði en áður. Eftir að varnargarðurinn brast rennur áin til vesturs í átt að veginum eins og hún gerði áður en brúin eyðilagðist í sumar.
mbl.is greindi frá þessu