Mummi Týr Þórarinsson á Gömlu-Borg í Grímsnesi sigraði í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Prófkjörið fór fram á netinu og greiddu 549 manns atkvæði.
Mummi Týr er fyrrverandi forstjóri Götusmiðjunnar og segir hann stefnu Pírata liggja vel að hans lífsskoðunum og hugmyndum hans um betra samfélag.
„Ég brenn fyrir mannréttindum, verndun og virðingu fyrir jörðinni okkar og alltaf tilbúinn að vera rödd fyrir þá sem hafa hana ekki. Ég hef fylgst með pólitík alla tíð og stutt allskyns framboð í gegnum árin. Píratar hafa alltaf höfðað sterkt til mín og nú er ég kominn að fullu um borð,“ segir Mummi, sem hefur verk að vinna fram að kosningum en Píratar náðu ekki inn þingmanni í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum.
Önnur í prófkjörinu varð Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg, og þriðji Bergþór H. Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands. Þar á eftir koma Linda Björg Arnheiðardóttir og Elísabet Kjárr Ólafsdóttir.