Stangveiðitímanum í Veiðivötnum lauk í gær, 24. ágúst kl. 15:00. Veiðin í sumar var mun betri en undanfarin ár og þarf að fara aftur til ársins 2011 til að finna álíka veiði.
Alls veiddust 21.066 fiskar, 8.984 urriðar og 12.082 bleikjur.
Að þessu sinni veiddust flestir fiskar í Snjóölduvatni en þar komu 4.994 á land. Litlisjór var næstur með 4.652 fiska. Langavatn, Nýjavatn, Hraunvötn og Ónýtavatn gáfu einnig góða veiði.
Stærsti fiskur sumarsins, 12,5 pund kom á land í Ónefndavatni í síðustu veiðivikunni og mesta meðalþyngdin yfir sumarið var 5,12 pund í Grænavatni.