Myndasetur og kortasjá opnuð

Á morgun, föstudaginn 10. maí kl. 16:30 opna Sveitarfélagið Árborg og Héraðsskjalasafn Árnesinga formlega vefsíðu um sögu húseigna í Sveitarfélaginu Árborg sem og Myndasetur.is, ljósmyndavef Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Athöfnin fer fram í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Karítas Harpa Davíðsdóttir og Fannar Freyr Magnússon spila og syngja sem og mætir 70 barna kór Selfosskirkju og gesta frá Hafnafirði og syngja nokkur lög. Öllum er velkomið að mæta en boðið verður upp á kaffi og með því.

Ljósmyndavefur Héraðsskjalasafnsins myndasetur.is er afrakstur af verkefni sem hófst haustið 2010. Þá fór Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari um héraðið, ræddi við ljósmyndara og fjölskyldur þeirra um mögulega afhendingu á ljósmyndunum á Héraðsskjalasafn Árnesinga. Þá um haustið afhentu Jóhann Þór Sigurbergsson, Sigurður Jónsson og Tómas Jónsson stór filmusöfn á héraðsskjalasafnið. Margir fleiri fylgdu svo í kjölfarið og lítil og stór söfn voru afhent á skjalasafnið.

Vorið 2011 hófu héraðsskjalasöfnin á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi samstarfi um söfnun, skönnun og skráningu ljósmynda og fengu styrk frá Alþingi auk þess sem skjalasöfnin leituðu til sveitarfélaga og menningarsjóða hvert á sínu svæði um styrki vegna verkefnisins. Sveitarfélagið Árborg og Menningaráð Suðurlands hafa frá upphafi styrkt verkefnið.

Yfir 150.000 ljósmyndir eru nú í vörslu safnsins en á myndavefnum eru um 45.000 ljósmyndir gerðar aðgengilegar. Vefurinn er einn stærsti ljósmyndavefur á landinu en myndirnar eru flestar úr Árnes- og Rangárvallasýslu. Enn tekur héraðsskjalasafnið við ljósmyndum, bæði stórum og litlum söfnum.

Skráning á sögu húseigna í Sveitarfélaginu Árborg hefur staðið yfir í vetur en í byrjun árs var ákveðið að hefja söfnun á upplýsingum um gamlar húseignir í sveitarfélaginu. Byrjað hefur verið á að kortleggja þau hús sem byggð eru fyrir árið 1946 og er nú búið að koma nokkrum þeirra inn í sérstaka kortasjá sem verður aðgengileg almenningi í gegnum heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar og Héraðsskjalasafns Árnesinga eftir opnunina nk. föstudag.

Inni á vefsíðunni er hægt að lesa um sögu hússins og fletta myndum af því. Einstaklingar munu geta komið að verkefninu með því að koma upplýsingum um sínar húseignir eða aðrar sem þeir þekkja, til starfsmanns verkefnisins Guðmundu Ólafsdóttur, gudmunda@arborg.is eða í síma 480-1900.

Fyrri grein„Verð að viðurkenna að ég er svekktur“
Næsta greinHrina uppboða gengur yfir Suðurland