Í dag, laugardag, fagna skátar 30 ára afmæli skátastarfs á Sólheimum í Grímsnesi en Skátafélag Sólheima var formlega stofnað þann 30. október árið 1985.
Frumkvæði að stofnun félagsins áttu þeir Guðmundur Pálsson og Guðjón Sigmundsson en þetta haust réðust þeir félagarnir til Sólheima í beinu framhaldi af því að hafa veitt sumarbúðum skáta á Úlfljótsvatni forstöðu. Allar götur síðan hefur skátastarfið skipað mikilvægan sess í félagsstarfi staðarins og félagsmenn verið duglegir að taka þátt í sameiginlegum viðburðum skáta af ýmsum tagi svo sem að taka þátt í skátamótum og öðru sameiginlegu starfi.
Þá hafa félagar úr Skátafélagi Sólheima tekið þátt í alþjóðlegum viðburðum á borð við alheimsmót skáta (Jamboree), fyrst í Ástralíu árið 1987 England 207 og síðast í Svíþjóð árið 2011.
Í tilefni af þessum merkilegu tímamótum verður slegið upp myndasýningu og dúndrandi kvöldvöku í Sesseljuhúsi og hefst dagskráin kl. 17:00 í dag og eru allir skátar og velunnarar starfsins og staðarins hjartanlega velkomnir.