Umferðin á Suðurlandi gekk stóráfallalaust í óveðrinu í morgun en ekki mátti miklu muna að stórslys yrði á Eyrarbakkavegi.
Krapi var víða á vegum og lentu bílar útaf bæði undir Ingólfsfjalli og á Eyrarbakkavegi. Ekki virðast hafa orðið slys á fólki eða skemmdir á bílum því morguninn var tiltölulega tíðindalítill hjá lögreglunni.
Að sögn Odds Árnasonar fuku ruslatunnur á Selfossi og á Stokkseyri, auk þess sem þakplata fauk á bíl á Selfossi og plötur losnuðu á auglýsingaskilti við Hrísmýri. Annars var rólegt á vaktinni.
Minnstu munaði þó að harður árekstur yrði á Eyrarbakkavegi í morgun. Gunnlaugur Helgason fékk þá bíl á móti sér á röngum vegarhelmingi en hann var vel vakandi og ekkert annað en ótrúleg viðbrögð Gunnlaugs komu í veg fyrir árekstur, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.