Páll Jökull Pétursson, ljósmyndari á Selfossi, tók þessar myndir af Skaftárhlaupinu í Skaftárdal kl. 18:00 í dag. Þar er vegurinn farinn í sundur og áin kolmórauð.
Að sögn Páls vottaði aðeins fyrir brennisteinslykt, en hann var með vindinn í bakið.
Í tilkynningu sem Veðurstofan sendi frá sér í dag kemur fram að rennslisaukningin við Sveinstind sé hin örasta sem mælst hefur síðan stöðinni var komið á fót árið 1971. Fyrstu athuganir benda til að hlaupið verði eitt hið stærsta, sem komið hefur úr Skaftárkötlum.
Klukkan tíu í morgun var hlaupvatn komið niður að mælinum við bæinn Skaftárdal en neðan Skaftárdals skiptist Skaftá í þrjá farvegi og liggur einn um Eldvatn framhjá Ásum og gegnum Flögulón niður í Kúðafljót, annar út á Eldhraun í Árkvíslum og sá þriðji rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri. (Sjá kort hér að neðan).
Helstu tímasetningar eru áætlaðar sem hér segir:
- Útrennsli við jökuljaðar nær væntanlega hámarki aðfaranótt föstudags.
- Líklegt er að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur aðfaranótt laugardagsins 3. okt.
- Hugsanlegt er að hlaupvatn flæði upp á þjóðveg 1 í Eldhrauni, 5 – 10 km vestan við Kirkjubæjarklaustur. Einnig er hugsanlegt að ágangs hlaupvatns gæti við Stóra-Brest, 5 – 6 km austan við Ása.

Vegurinn að Skaftárdal er í sundur. sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson

Séð yfir Skaftá heim að Skaftárdal. sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson

Mikil iðuköst í ánni. sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson

sunnlenska.is/Páll Jökull Pétursson
