Um síðustu helgi kom ljósmyndari á vegum ítalska barnafatatímaritsins „Magazine Collezioni 03 Baby“ til að mynda íslensk börn í íslensku umhverfi.
Myndatakan fór fram víðsvegar á Suðurlandi og var Selfyssingurinn Berglind Rós Magnúsdóttir, eigandi barnafataverslunarinnar Beroma, tengiliður þeirra hér á landi.
„Tímaritið setti sig í samband við franska tískuljósmyndarann Wanda Kujacz og vildu fá hana til að gera átján blaðsíðna myndaþátt sem mun birtast í blaðinu í haust. Wanda er virkilega fær ljósmyndari og með sérstaklega ævintýralegan og öðruvísi stíl þegar kemur að myndvinnslu,“ segir Berglind en þess má geta að Kujacz hefur meðal annars unnið fyrir hið virta tískutímarit Vogue.
„Henni datt í hug að það væri skemmtilegt að gera þennan myndaþátt hér á Íslandi og hafði því samband við mig varðandi skipulagninguna,“ segir Berglind en Kujacz fann hana í gegnum Facebooksíðu Beroma.
Berglind sá um alla forvinnu áður en Wanda kom hingað til lands. Sem dæmi má nefna fann hún staðsetningar til að mynda á, alla leikmuni sem voru notaðir við myndatökuna og setti saman fatnaðinn sem hún fékk sendan frá Ítalíu. Auk þess fann hún fyrirsætur og aðstoðarmenn.
„Ég fékk gríðarleg viðbrögð þegar ég auglýsti eftir fyrirsætum en mér bárust tæplega 200 myndir af íslenskum stelpum á aldrinum 3-5 ára og var því hægara sagt en gert að velja úr. Við enduðum á því að fá tvær stelpur frá Selfossi og tvær úr Reykjavík,“ segir Berglind og bætir því við að ungu fyrirsæturnar hafi verið einstaklega þolinmóðar og duglegar á meðan á myndatökunni stóð.
Þemað í myndaþættinum var flugvélar, einhver nostalgísk tilfinning og íslenskt umhverfi. Að sögn Berglindar var fólk sem hún leitaði til mjög liðlegt og hjálpsamt. „Ég var ótrúlega heppin hvað allir voru velviljaðir til að láta allt ganga upp sem ég óskaði eftir. Við fengum meðal annars að mynda við Strandarkirkju, á Eyrarbakka, við Ingólfsfjall, á Selfossflugvelli og á fleiri fallegum stöðum. Ég er sérstaklega þakklát þeirri hjálp sem við fengum frá Flugklúbbi Selfoss, eigendum flugvélarinnar TF-DYR og frá leikskólanum Jötunheimum á Selfossi sem meðal annars lánaði okkur leikmuni,“ segir Berglind. Þó nokkur tími fór í undirbúningvinnu eða um sex vikur. Myndatakan sjálf tók svo um þrjá daga.
Berglind segir að það hafi verið skemmtilegt að sjá hugmyndirnar ganga upp og verða að raunveruleika. „Við fengum virkilega flottar myndir og erum mjög ánægð með efnið sem við fengum. Það verður erfitt að velja úr myndunum þrátt fyrir að myndaþátturinn sé heilar átján blaðsíður,“ segir Berglind að lokum en hún á von á vinna að frekari verkefnum með Wanda Kujacz á næstunni.