Vík í Mýrdal, einn vinsælasti ferðamannastaður á Suðurlandi hefur orðið fyrir afar litlum áhrifum vegna eldgossins í Grímsvötnum.
Öll þjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu eru opin og sáralítil aska er í þorpinu en Mýrdalurinn hefur sloppið nánast algerlega við öskufall.
Nú þegar útlit er fyrir að gosinu sé lokið vill sveitarstjórn Mýrdalshrepps vekja athygli á því að sveitarfélagið er svo til öskufrítt og að þar er öll þjónusta við ferðamenn í boði. Tjaldstæðið opnar um mánaðarmótin, golfvöllurinn skartar sínu fegursta og fuglalíf er í miklum blóma. Sundlauginni varð að loka tímabundið, en nú unnið að því að hreinsa hana og opna á nýjan leik.
„Okkur leist ekki á blikuna á sunnudaginn þegar öskumistrið hér var sem verst. Við erum þess vegna afskaplega fegin hversu vel þorpið okkar og sveitarfélagið í heild hefur sloppið. Hér er nánast engin aska og við erum í óða önn að þrífa síðustu ummerkin um gosið. Hér hafa allir lagst á eitt við að búa okkur undir stórt ferðamannasumar og þrátt fyrir þetta áfall erum við full bjartsýni og trú á að úr rætist. Við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur af nágrönnum okkar á Kirkjubæjarklaustri og sveitunum þar í kring og erum reiðubúin að liðsinna og aðstoða þar eins og við mögulega getum,“ sagði Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, í samtali við sunnlenska.is.