Skammdegishátíðin Þollóween verður haldin í Þorlákshöfn dagana 29. október – 4. nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin.
„Undanfarin ár hefur verið sívaxandi áhugi fyrir því að taka þátt í hrekkjavökunni, bæði hjá börnum og fullorðnum. Eftir hrekkjavökuna í fyrra kastaði því einhver fram á íbúasíðu Þorlákshafnarbúa hvort ekki væri sniðugt að halda Þollóween á næsta ári,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, í samtali viðsunnlenska.is.
„Það kveikti hugmynd sem svo þróaðist yfir í vikuhátíð þegar nokkrar öflugar konur í Þorlákshöfn fóru að ræða málið. Það var í raun fyrir aðeins um tveimur vikum og síðan þá hefur hópurinn náð að setja saman glæsilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna með góðum stuðningi heimafólks,“ segir Ása og bætir því við að hópurinn samanstandi að nokkrum konum sem eiga það sameiginlegt að vera skapandi, framkvæmdaglaðar mömmur úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Taugatrekkjandi diskó og ónotaleg sundstund
Dagskrá Þollóween er ansi metnaðarfull. „Í Þollóween dagskránni má meðal annars finna skelfilega skrautsmiðju þar sem fjölskyldur geta komið saman og skorið út grasker og fleira, ónotaleg sundstund með „blóðugum“ pottum, hræðilegri tónlist og óvæntum atburðum, vasaljósaleit fyrir yngstu börnin sem verður haldin í fína Skrúðgarðinum okkar en þar má búast við að finna grafir og bein.“
„Þá er einnig gaman að nefna Afturgönguna þar sem gengið verður um Þorlákshöfn og sögumaður segir sögur sem ekki eru venjulega sagðar, þar þarf einnig að hafa í huga að margt býr í myrkrinu! Auðvitað verða svo Þollóween böll fyrir ólíkar kynslóðir, draugahús, furðurfatahlaup, taugatrekkjandi diskó, grikk eða gott og fleira,“ segir Ása.
Líka fyrir myrkfælna
Ása segir að Þollóween sé fyrir alla sem þora. „Hópurinn sem stendur að hátíðinni lagði upp með að hafa dagskrána þannig að allir hefðu gaman að, ungir sem aldnir. Meira að segja draugahræddir og myrkfælnir ættu að finna viðburð við sitt hæfi, eins og furðufatahlaupið sem fer fram í dagsbirtu. Það er okkur kappsmál að búa til vettvang fyrir börn og foreldra að taka þátt í sameiningu.“
„Í þessu mikla skammdegi sem nú hellist yfir okkur er fátt annað að gera en að fagna myrkrinu og það ætlum við að gera í Þorlákshöfn með þessari skammdegishátíð fyrir alla fjölskylduna. Margir vilja meina að við ættum ekki að vera að taka upp svona ameríska siði eins og Halloween er, en ég segi að það er sama hvaðan gott kemur.“
„Það er líka svo skemmtilegt að klæða sig í búning og komast aðeins í tengsl við barnið í sjálfum sér, svo okkur langar að hvetja alla fullorðna til að vera „all in“, fara í búninga, hvort þeir eiga börn eða ekki og láta hræða sig aðeins. Hver elskar ekki sögur um drauga og myrkraverur, maður vex aldrei upp úr því enda eru svoleiðis sögur samofnar menningu okkar Íslendinga,“ segir Ása að lokum.
Áhugasamir geta fylgst með Þollóween á Facebook.