Næst lægsta tilboðinu tekið

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að ganga til samninga við teiknistofuna Steinsholt á Hellu og verkfræðistofuna Eflu til að endurvinna aðalskipulag sveitarfélagsins 2017 til 2029.

Send voru gögn til sex aðila en tilboð bárust frá fimm. Ákveðið var að taka ekki lægsta tilboðinu en niðurstaða sveitarstjóra og oddvita var sú að lægstbjóðandi hafi ekki þá reynslu sem þau fyrirtæki hafa sem buðu næstlægsta verðið.

„Tilboð þeirra eru töluvert hærri og má ætla að erfitt geti reynst að standa við lægsta tilboðið. Að öllu samanteknu er það mat sveitarstjórnar að þekking og reynsla vegi þyngra en verð og því verði gengið til samninga við Steinsholt sf og Eflu ehf sem var næstlægst á grundvelli tilboðs þess,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Fyrri greinSíðasti sýningardagur – Karlotta ræðir við gesti
Næsta greinSelfyssingar gagnrýna harðlega flutning á íþróttakennslu frá Laugarvatni