Næsta Skaftárhlaup gæti markað endalok Skaftár eins og menn þekkja hana í dag. Vegna bráðnunar í jöklinum gæti hlaupið farið í Hverfisfljót. Búist er við hlaupi á næstu dögum eða vikum.
Hlaup í Skaftá hafa iðulega valdið búsifjum, þar sem fljótið flæmist yfir bakka sína. En nú gæti svo farið, svo undarlega sem það kann að hljóma, að næsta Skaftárhlaup verði bara alls ekki í Skaftá.
„Það er búið að vera óvenju löng bið eftir þessu hlaupi, sem verður væntanlega nokkuð stórt, miðað við þau sem hafa komið. Eða svona í stærra lagi. Og menn vita það ekki fyrir víst hvort það heldur sig við Skaftá eða gæti farið í aðrar ár, eins og til dæmis Hverfisfljót,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur í viðtali við Ríkissjónvarpið.
„Það er vegna þess að landið undir jöklinum er meira eða minna í beinum hryggjum, móbergshryggjum, eins og eru sunnan við Vatnajökul í Fögrufjöllum, menn þekkja best kannski Fögrufjöll. Og Jökullinn hann getur með krafti sínum lyft vatninu yfir þessa fjallgarða. En ef að svo jökullinn hörfar, eins og hann er að gera, yfir fjallgarðana og þá fer það í meira mæli suður með Fjallgörðunum,“ segir Oddur.
Hann segir að hlaupi Skaftá í Hverfisfljót þá geti það haft umtalsverðar afleiðingar enda sé árfarvegurinn ekki undir það búinn að taka við margföldu vatnsmagni. „Ef það færi nú allt þangað þá væri brúin í hættu. Síðan eru byggðir þarna niðri í Fljótshverfi sem líða fyrir framburð Hverfisfljóts og ef að hann yrði til mikilla muna aukinn þá er bara verulegur vandi sem steðjar að þeim,“ segir Oddur.