„Við ætlum okkur að byggja næsta á Orrustustöðustöðum, sem er fjörutíu kílómetra fyrir austan Kirkjubæjarklaustur og þar á eftir kemur Húsavík”, segir Hreiðar Hermannsson hjá Stracta hótel.
Hreiðar og sonur hans, Hermann, opnuðu formlega í síðustu viku fyrsta Stracta hótelið á Hellu. Hótelið er glæsilegt í alla staði með gistirými fyrir 280 gesti í sex mismunandi útfærslum af herbergjum.
Fyrstu gestir hótelsins komu inn í það í lok júní í kringum landsmót hestamanna á Hellu.
„Það eru allir yfirsig hrifnir enda erum við ekki að fá neinar kvartanir, gestir okkar eru í skýjunum með hótelið og allan aðbúnað þess,” bætir Hreiðar við. Um 30 manns starfa á hótelinu.
Það kostaði um einn og hálfan milljarð króna að koma hótelinu upp. Í hótelgarðinum er að finna heita potta, gufuböð og búningsklefa, sem standa öllum hótelgestum til boða.