Náðu ekki að syngja í gígnum

Hátt í níutíu manns tóku þátt í leiðangri Karlakórs Kjalnesinga á Skjaldbreið sl. laugardag en kórinn náði ekki í gíginn vegna veðurs og færðar.

Kórinn fagnar tuttugu ára starfsafmæli sínu á þessu ári og stendur af því tilefni fyrir tuttugu viðburðum á árinu, misjafnlega hefðbundnum.

Safnast var saman við Skógarhóla kl. 10:30 þar sem nokkrir bílar voru skildir eftir og hluti hópsins stökk um borð í fjallatrukk einn mikinn sem Arngrímur Hermannsson ók. Haldið var sem leið lá að vegamótum Kaldadals og Uxahryggjaleiðar og þaðan beint til austurs eftir línuvegi að rótum fjallsins að norðanverðu og þaðan á toppinn… eða næstum því.

Ferðin sóttist heldur seint, þar sem færi var heldur þungt og mikið hjakkað og dregið. Þegar aðeins var stutt eftir á leiðarenda voru flestir bílarnir skildir eftir og ákveðið að treysta á trukkinn, sem mjakaðist hægt en nokkuð ákveðið áfram nokkurn spotta. Þar kom þó að meira að segja hann komst ekki lengra – og þá var skollið á dimmt él og þótti því ekki hyggilegt að þrjóskast við að ná tindinum. Nokkrir komust þó þangað á vélsleðum og jeppum – og einn á skíðum. En skynsemin fékk að ráða og hópnum var snúið við.

Tónleikarnir sem vera áttu í gígnum voru fluttir í skjól við fjallatrukkinn um einum kílómetra frá fyrirhuguðum tónleikastað – og höfðu margir á orði að það gengi bara betur næst, einhvern tíma skyldu þeir syngja í gígnum.

Í öruggu skjóli fjallarútunnar flutti Karlakór Kjalnesinga undir stjórn Páls Helgasonar öll ellefu erindin í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Fjallið Skjaldbreiður, og nokkur önnur lög við ljóð Jónasar, við rífandi undirtektir tónleikagesta.

Heimasíða Upplits

Fyrri greinAftur til vandræða á Bakkanum
Næsta greinÓkeypis á klósettið um páskana