HÚM stúdíó hefur opnað á ný og er nú til húsa að Gagnheiði 45 á Selfossi. HÚM var áður til húsa við Austurveg en varð að hætta starfsemi sinni í desember 2022 þegar HÚM missti húsnæðið.
„HÚM er sameiginleg vinnustofa þar sem nokkrar listakonur deila rými. Allar með misjafnan bakgrunn og vinnum með ólíka miðla, svo sem ljósmyndun, myndlist og hönnun. Rýmið okkar er því eina stundina keramik stúdíó, aðra ljósmynda stúdíó og þess á milli góður staður til að hittast, hlæja og skapa,“ segir Steinunn Birna Guðjónsdóttir, ein af HÚM-konunum, í samtali við sunnlenska.is.
Ólíkar listakonur
Steinunn Birna segir að HÚM-hópurinn hafi aðeins breyst síðan þær hófu fyrst starfsemi sína í júlí 2021. „Við erum Kristrún Helga Marinósdóttir, sem gerir falleg ullarverk sem prýða mörg heimili landsmanna sem og opinberar skrifstofur, Hanna Siv Bjarnadóttir, ljósmyndari með meiru, Tinna Ýr Einisdóttir, innanhússarkitekt og myndlistarkona og svo ég, leirlistakona og myndlistarkona.“
„Svo höfum við fengið til liðs við okkur leirlistakonuna Marie Klith en hún hannar einnig vörur úr leðri og einnig er hér Alma Svanhild myndlistarkona, sem rekur einnig Kjötbúrið sælkeraverslun. Kristrún okkar Rut stundar nú nám í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og gat því miður ekki haldið áfram og Eyrún okkar fluttist erlendis en þeirra er sárt saknað.“
Söknuðu félagskapsins
HÚM var stofnað sumarið 2021 að frumkvæði Dúddu, Hönnu Sivjar og Eyrúnar. „Þá vorum við að leigja stórt húsnæði fyrir ofan Íslandsbanka, þar sem áður var saumastofa. En eins og gengur og gerist á leigumarkaðnum þá var eignin seld og við vorum því án húsnæðis í tæpt ár. Við fengum húsnæði hérna í Gagnheiðinni í nóvember 2023. Nýja húsnæðið hefur sína kosti og galla, það er töluvert minna en það sem við vorum í áður, en okkur líður afskaplega vel hérna og hlökkum til að sjá hvað verður brasað hér næstu árin.“
Steinunn segir að það hafi verið félagsskapurinn sem þær stöllur söknuðu fyrst og fremst þegar þær voru án húsnæðis. „Það er svo nærandi að vera eiga góðar vinkonur sem deila svipuðum áhugamálum og brenna fyrir listsköpun. Það er líka svo mikilvægt að eiga samtal í listrænni sköpun og það fyllir mann innblæstri til þess að skapa meira. Það gefur okkur eitthvað aukalega að deila rými með öðru listafólki.“
Var áður klassískt iðnaðarbil
Það tók góðan tíma fyrir þær að standsetja húsnæðið svo að þær gætu hafið starfsemi í því. „Rýmið var frekar hrátt, svona frekar klassískt gamalt iðnaðarbil í Gagnheiðinni, en okkur hefur tekist að gera það huggulegt. Það kemur sér vel að vera með innanhússarkitekt í okkar röðum.“
„Svo hefur svona hægt og rólega verið að færast fjör í HÚM en það var strax í janúar sem við fórum að taka á móti hópum í alls konar glens. Sem dæmi hef ég verið að taka á móti hópum í svokallaðar leirstundir þar sem fólk kemur og leirar allskonar keramikmuni og á um leið góðar stundir saman. Einnig hefur Dúdda verið að taka á móti hópum í kertakvöld, þar sem fólk fær að gera sín eigin skilaboðakerti eins og Dúdda er fræg fyrir að gera.“
Innflutningspartý fljótlega
Steinunn segir að vegna anna hafi þær ekki tekið skrefið til fulls að vera með fastan opnunartíma enda allar í öðrum störfum samhliða HÚM. „Ég hef verið að bjóða upp á opna leirtíma á fimmtudögum frá klukkan 11-14 og svo eru tímar sérstaklega ætlaðir ungmennum frá klukkan 14-17. Það mun halda sér að minnsta kosti út maí en gæti tekið breytingum í júní.“
„Við stefnum á að halda innflutningspartý fljótlega, þegar við erum alveg búnar að koma okkur fyrir. Svo er planið að vera með mismunandi opnanir eins og við vorum með á gamla staðnum, það vakti til að mynda mikla lukku þegar við vorum með plöntuskiptimarkað sem væri virkilega gaman að endurtaka.“
„Ég hvet fólk til að hika ekki við að hafa samband ef það vill koma í heimsókn, hvort sem það eru einstaklingar eða hópar. Við reynum að hittast alltaf á þriðjudagskvöldum og eiga góða stund saman,“ segir Steinunn að lokum.