Nafnlaust bréf sent nágrönnum

Íbúar í hluta Hólahverfis á Selfossi fengu nafnlaust dreifibréf inn um bréfalúguna hjá sér síðdegis í gær þar sem bent er á að dæmdur kynferðisafbrotamaður búi í hverfinu.

Yfirskrift bréfsins er „Pervert í hverfinu“. Þar er birt nafn mannsins, heimilisfang og stór mynd af honum auk vefslóðar á dóm Hæstaréttar.

Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir manninum á dögunum. Hann var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að tæla 17 ára gamla stúlku og misnota hana kynferðislega árið 2009.

Svanur Kristinsson, lögregluvarðstjóri á Selfossi, sagði í samtali við sunnlenska.is að lögreglu hafi borist tilkynning um bréfið og málið sé til skoðunar hjá rannsóknardeild lögreglunnar. Mögulegt sé að með bréfinu sé verið að brjóta ákvæði í almennum hegningarlögum um friðhelgi einkalífsins.

Fyrri greinBrenne í raðir Selfoss
Næsta greinÁkvörðun ráðherra ógilt