Nágrannavarsla hafin í Hveragerði

Átak í nágrannavörslu er hafið í Hveragerði en undanfarna daga hafa verið haldnir fundir með forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana og íbúum hverfa bæjarins þar sem skipaðir hafa verið götustjórar sem fylgja eiga eftir stofnun nágrannavörslunnar í sínum götum. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir þátttökun gríðarlega góða og greinilegt á viðtökum bæjarbúa að þetta frumkvæði Hveragerðisbæjar og VÍS mælist vel fyrir.

Pétur Guðmundsson, afbrotafræðingur, stýrir upphafi verkefnisins í samvinnu við lögregluna í Árnessýslu. „Þetta byggist fyrst og fremst á því að fólk fylgist með eigum og heimilum hvers annars. Afskiptasemi og athygli er það sem öllu skiptir þegar koma á í veg fyrir afbrot og þetta er oft einfaldara að innleiða í smærri bæjarfélögum þar sem allir þekkja alla,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is

Bæjarstjórn Hveragerðis stefnir markvisst að því að gera Hveragerði að öruggasta bæjarfélagi landsins. „Undirbúningur að uppsetningu öryggismyndavéla við innkeyrslurnar í bæjarfélagið er nú á lokastigi, farandgæsla á vegum Securitas er í bæjarfélaginu og þegar virk nágrannavarsla bætist síðan við í öllum hverfum bæjarins þá erum við komin langt á þeirri vegferð að gera Hveragerði að einu öruggasta bæjarfélagi landsins,“ segir bæjarstjórinn Aldís að lokum.

Fyrri greinHraunið rennur á víxl í gilin
Næsta greinGufusprengingar í Hvannárgili