Snarræði slökkviliðsmanns kom í veg fyrir stórtjón þegar eldur kom upp í potti á eldavélarhellu í einbýlishúsi við Hólatjörn á Selfossi kl. 19 í kvöld.
Í stað þess að bruna út á slökkvistöð fór Viðar Arason, slökkviliðsmaður, beint á útkallsstaðinn en hann býr í næstu götu. Þegar Viðar hafði fullvissað sig um að allir voru komnir út úr húsinu hljóp hann inn með slökkvitæki, slökkti eldinn og bar út potta og teppi sem kviknað hafði í.
Lögregla telur fullvíst að verr hefði farið ef Viðar hefði ekki mætt beint á staðinn. Eldurinn var farinn að læsa sig í gufugleypi og hefði breiðst út á skömmum tíma ef hann hefði fengið að loga þar.
Minniháttar skemmdir urðu í eldhúsinu en slökkviliðsmenn þurftu að reykræsta húsið.