Um kl. 19 í gærkvöldi fékk lögreglan á Selfossi tilkynningu um nakinn mann sem væri að húkka sér far á Suðurlandsvegi, fyrir utan bæinn.
Þegar lögreglumenn komu á staðinn var engan nakinn mann að sjá. Í dagbók lögreglu kemur fram að annað hvort hafi verið um gabb að ræða eða að einhverjum vegfaranda hafi litist vel á manninn og tekið hann upp.
Margt fólk var á ferð í umdæmi Selfosslögreglunnar um helgina og sinnti lögregla fjölda verkefna en engin alvarleg tilvik komu upp. Þó hefði vissulega getað farið illa þegar þrír ungir menn syntu yfir Hvítá í nótt.
Þá voru fimm ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og einn fyrir fíkniefnakstur.