Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, kvaddi sér hljóðs á Alþingi í morgun til að vekja athygli á því að Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur skorið niður um helming námsráðgjafastöðu sem löggjafinn ætlaði sérstaklega fyrir fanga, og notað fjármagnið í annan rekstur skólans.
Þegar staðan var skorin úr 100% niður í 50% gafst námsráðgjafinn upp og lét af störfum. Löggjafinn sem fer með fjárveitingavaldið hafði sérstaklega ætlað fjármagnið til að styðja við bakið á föngum enda er menntun lykilþáttur í betrun.
Helgi Hrafn skoraði á þingheim að leiðrétta þetta og tryggja föngum viðunandi námsráðgjöf, enda hefur Ríkisendurskoðun bent á að brottfall fanga hafi minnkað og námsárangur þeirra batnað eftir að námsráðgjafi hóf að sinna föngum árið 2008.
„Í fjárlögum fyrir árið 2011 fékk Fjölbrautaskóli Suðurlands aukið fjármagn til að unnt væri að hækka stöðugildið upp í 100%, en það hafði áður verið 70%. Nú hefur skólinn ákveðið það hjá sjálfum sér að skera niður þessa stöðu úr 100% niður í 50%, í fullkomnu trássi við vilja löggjafans sem fer með fjárveitingavaldið. Þetta fjármagn var sérstaklega veitt í þessa stöðu til að bæta möguleika fanga til náms,“ sagði Helgi Hrafn meðal annars í ræðu sinni.
Hann bætti því við að í þessu fælist ákveðin kaldhæðni, að menntastofnun taki til sín fjármagn sem löggjafinn hefur tilgreint að fara eigi til menntunar fanga. „Ókurteisari menn gætu kallað þetta tegund af þjófnaði. Því legg ég til að Alþingi rétti þetta ranglæti og tryggi að námsráðgjöf fanga verði aftur að 100% stöðu eins og Alþingi hefur reyndar þegar ákveðið,“ sagði Helgi ennfremur.