Starfsmenn Skógræktarinnar unnu að því í síðustu viku að safna birkifræi af úrvalstrjám í Húsadal á Þórsmörk og Foldum ofan Húsadals.
Þar er að finna miklar breiður af ungbirki sem þar hefur sáð sér út undanfarna áratugi. Einnig var safnað greinum til ágræðslu sem nota á til undaneldis við frærækt í fræhúsi.
Inn á milli í skóginum má finna beinvaxnar, hvítstofna bjarkir þar sem greinahorn er nokkuð gleitt, jafnvel með slútandi greinar. Oft eru þessi tré hávaxnari en nágrannar þeirra sem bendir til að þau vaxi hraðar.
Eitt af trjánum, sem leiðangursmenn rákust á, skar sig nokkuð úr í vaxtarlagi og greinabyggingu. Heita mátti að það væri gallalaust, einstofna og næstum „fullkomið“ í laginu. Það var um 4 m á hæð en varla nema 12-14 ára gamalt sem ber vott um mikinn vaxtarþrótt.
Þorsteinn Tómasson hefur unnið að kynbótum á birki síðustu áratugi og hefur síðustu ár m.a. haft aðstöðu til fræræktunar í stóra gróðurhúsinu á Tumastöðum. Verður spennandi að fylgjast með þeim trjám sem koma upp af fræjum af þessum beinvöxnu birkiplöntum, sem og þeim plöntum sem græddar verða á rót og notaðar til undaneldis.
Frá þessu er greint á heimasíðu Skógrækarinnar