Sveitarstjórn Skaftárhrepps vill ekki að heimilt verði að nota húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi nema á skipulögðum svæðum utan þéttbýlis nema með sérstöku leyfi.
Þetta má sjá í umsögnum um frumvarp laga um náttúrvernd, sem umhverfisráðherra hefur kynnt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að notkun slíkra farartækja sé áfram leyfð á óræktuðum svæðum í vegasambandi.
Því eru sveitarstjórnarmenn í Skaftárhreppi ekki sammála.
„Næturdvöl veldur ónæði á landeiganda og aðra ferðamenn, óþrifnaði vegna úrgangs, ásamt aukinni eldhættu á viðkvæmum landsvæðum,“ segir í umsögn Skaftárhrepps. Þar er jafnframt varað við ýmsum hættum vegna náttúruhamfara og segir í umsögninni að erfitt verði að tryggja öryggi þeirra sem dveljast utan merktra svæða.
Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps segir umsögn hreppsins byggða á reynslu heimamanna. „Þetta á einkanlega við bílaleigubíla, þá mest svokallaða „Happy Campers“ húsbíla sem útlendingar leigja mikið og ferðast á,“ segir hún.
Slíkum farartækjum sé meðal annars lagt inni í þorpinu á Klaustri, og meðfram vegum hér og þar í sveitarfélaginu. „Og þar sem engin aðstaða er fyrir slíkt, þá geta hlotist af því ákveðin vandamál. Það er vissulega erfitt að fylgjast með slíku í jafn stóru sveitarfélagi,“ segir Eva í samtali við Sunnlenska.