Náttúrugrið kæra virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund

Tölvugerð mynd Landsvirkjunar af vindorkuverinu við Vaðöldu.

Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið hafa kært virkjunarleyfi Orkustofnunar vegna Búrfellslundar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samtökin telja að virkjunarkosturinn hefði aldrei átt að rata í virkjanaflokk sökum gildis svæðisins fyrir útivist innlendra og erlendra ferðamanna sem heimsækja hálendið til að upplifa öræfakyrrð einna verðmætustu óbyggða Evrópu og þótt víðar væri leitað.

„Vindorkuverið yrði á sjálfu miðhálendi Íslands og mun samkvæmt rannsóknum skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið og hafa áhrif á upplifun ferðamanna langt út fyrir sjálft virkjanasvæðið, eða yfir alla Sprengisandsleið, Fjallabak og önnur dýrmæt hálendissvæði þessum leiðum tengdum,“ segir í tilkynningu frá Náttúrugriðum.

Pólitísk hrossakaup og þrýstingur Landsvirkjunar
„Búrfellslundur var flokkaður í biðflokk verkefnastjórnar rammaáætlunar árið 2016 sem og við framlagningu umhverfisráðherra á rammaáætlun 2022. Árið 2022 urðu pólitísk hrossakaup og þrýstingur Landsvirkjunar hins vegar til þess að við lokaafgreiðslu rammaáætlunar á Alþingi var Búrfellslundur færður úr biðflokki yfir í virkjunarflokk. Ríkisstjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis gekk þar þvert á vísindaleg rök verkefnisstjórnar rammaáætlunar með vægast sagt vafasömum rökstuðningi,“ segir ennfremur í tilkynningu Náttúrugriða.

Fyrri greinMetfjöldi í Hrunaréttum
Næsta greinHera Björk stígur á stokk með Hr. Eydís