Nauðsynlegt að ráðast í nýbyggingu

Hönnunarvinna er hafin við endurbætur á sjúkrahúsinu á Selfossi og er stefnt að því að henni verði lokið upp úr miðju sumri.

Að sögn Magnúsar Skúlasonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, standa vonir til þess að nú verði loksins ráðist í nauðsynlega endurnýjun og breytingar á eldri hluta hússins.

,,Það er hins vegar ekkert leyndarmál að við teljum nauðsynlegt að ráðast stækkun á húsnæðinu til þess að Sunnlendingar hafi sama aðgang að heilsuþjónustu og aðrir landsmenn,” segir Magnús.

Eins og hefur komið fram áður í Sunnlenska hefur verið mikill dráttur á að ráðist sé í framkvæmdir þrátt fyrir fjárveitingar í fjárlögum upp á 90 milljónir króna árið 2010 og 62 milljónir króna árið 2011.

Í nýlegu svari velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, kemur fram að upp úr síðastliðnum áramótum hafi náðst samstaða um þær forsendur sem endurhönnun gamla hlutans mun byggjast á. Samkvæmt þeim verður rekin bráðamóttaka í húsinu en þar verður auk þess góð aðstaða til að veita sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi. Legudeild verður endurbætt og henni breytt til að uppfylla þær kröfur sem nú eru gerðar til sjúkrarýma. Aðstaða fyrir aðra sjúkraþjónustu verður einnig bætt.

Vinna við frumhönnun verksins er hafin og stefnt að því að henni ljúki upp úr miðju sumri. Þá mun strax verða leitað heimilda til verkhönnunar og útboðs framkvæmda í framhaldi af því. Það er skoðun manna að þær 152 milljónir sem teknar hafi verið í verkið dugi ekki til og staðfesti Magnús það. ,,Þetta er meira verkefni en menn hafa gert ráð fyrir,” sagði Magnús. Ekki síst ef ráðist verður í nýbyggingu eins og margir telja nauðsynlegt.

Fyrri greinSæbýli fær 5 milljóna styrk
Næsta greinÁsahreppur gerir áfram vel við íbúa sína