Nauðsynlegt að ráða mannauðsstjóra svo fljótt sem auðið er

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, að ráðinn verði mannauðsstjóri til sveitarfélagsins frá næstu áramótum.

Í greinargerð með tillögunni segir að mjög hafi komið fram í máli starfsmanna og kjörinna fulltrúa að þörf sé á ráðningu mannauðsstjóra til sveitarfélagsins. Almennt megi reikna með að mannauðsstjóra sé þörf þegar starfsmannafjöldi nær 80-120 en starfsmenn Árborgar eru fleiri en 700.

„Vöntun á mannauðsstjóra veldur því að forstöðumenn stofnana þurfa án stuðnings að takast á við flókin starfsmannamál sem kalla á sérþekkingu á lögum, reglum og kjarasamningum. Þetta eykur álag á stjórnendur og getur leitt til aukins kostnaðar fyrir sveitarfélagið þegar illa tekst til. Eftirlit með launaröðun starfsmanna, fjarvistum, veikindum og heilbrigðu starfsumhverfi er einnig ábótavant þegar mannauðsstjóri er ekki til staðar,“ segir ennfremur í tillögu bæjarstjóra sem telur nauðsynlegt að ráðning mannauðsstjóra eigi sér stað svo fljótt sem auðið er.

Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum.

Fyrri greinLjósleiðaralagning að hefjast í Flóahreppi
Næsta grein„Rautt skal það vera“