Ekki fæst heimild til að reisa minkabú á svæði norðaustur af Stokkseyri en umsókn þess efnis var afgreidd hjá skipulags- og byggingarnefnd Árborgar í vikunni.
Umsókninni var hafnað á þeim forsendum að starfsemin yrði of nálægt skipulagðri byggð.
Forsvarsmenn verkefnisins höfðu þó upphaflega sent inn erindi um heppilega tíu hektarara lóð undir minkabúið og verið bent á umrætt svæði af embættismönnum bæjarins og sóttu um hana samkvæmt þeim ráðleggingum.
Viðar Magnússon, sem sótti um lóðina, segist forundrandi á niðurstöðu skipulagsnefndarinnar og telur líklegt að farið verði fram á rökstuðning. Hann vildi ekki segja til um hvort leitað yrði eftir öðru svæði undir starfsemina.
Eftir því sem næst verður komist er íbúabyggð deiliskipulögð á nærliggjandi jörð og því innan við 500 metrar að því svæði sem hugmyndir voru um að koma upp minkabúinu.