Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa ákveðið að gefa framhalds- og háskólanemum frían aðgang í vagna Strætó sem keyra um Suðurlandið frá 15. ágúst til 12. september næstkomandi.
Allir framhaldsskóla og háksólanemar sem ferðast með leiðum 51 og 52 til og frá Reykjavík, eða með leiðum 71, 72, 73 og 75 á Suðurlandi, fá frítt í þessa vagna gegn framvísun skólaskírteinis. Hátt í 2.000 sunnlenskir nemendur munu því hafa möguleika á því að ferðast frítt með Strætó á Suðurlandi á tímabilinu.
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, segir að kveikjan að þessu verkefni hafi komið úr rannsókn sem var framkvæmd á ferðahegðun. Sérstök áhersla var lögð á að kanna hug framhaldskólanema á Suðurlandi og hvernig þeir ferðuðust til og frá skóla.
„Nýtt skólaár er að hefjast, en margir Sunnlendingar stunda nám í framhaldsskólum í heimabyggð og á höfuðborgarsvæðinu. Út frá fyrirliggjandi gögnum var ákveðið að bjóða upp á fríar ferðir í landshlutanum í fjórar vikur. Við viljum sjá til þess að ungt fólk á Suðurlandi fái fljúgandi start í skólanum og bjóðum nemum að ferðast frítt með Strætó í fjórar vikur, frá 15. ágúst til 12. september nk. Strætó er frábær ferðamáti og hentar skólafólki einstaklega vel, auk þess sem um umhverfisvænan, ódýran, þægilegan og öruggan feðamáta er að ræða,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að áhugavert verði að sjá hvernig viðtökurnar verði. „Þetta er tilraunaverkefni og það er aldrei að vita hvernig framhaldið verður ef allt gengur vel. Við munum fara vel yfir öll gögn og meta árangurinn út frá því.“