Fleiri nemendur hafa verið innritaðir í Stekkjaskóla á Selfossi en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nemendur á öðru starfsári skólans eru 170 við upphaf skólaársins en voru 106 síðastliðið vor.
Þetta kemur fram í erindi Hilmars Björgvinssonar, skólastjóra, sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Árborgar í dag. Í erindinu óskaði Hilmar eftir viðauka við launaáætlun skólans til að ráða einn umsjónarkennara til viðbótar.
Mesta fjölgunin í Stekkjaskóla hefur orðið í 3.-4. bekk en 42 nemendur hefja nám í 1. bekk nú í haust og er það stærsti árgangur skólans.
„Á sama tíma og hægt er að gleðjast yfir mikilli fjölgun nemenda fylgir henni ákveðin áskorun sem snýr að núverandi húsnæði og fjölda umsjónarkennara,“ segir Hilmar, en með því að bæta við einum umsjónarkennara muni takast að skapa svigrúm til að taka á móti þeim nemendum sem flytja í skólahverfið í vetur, sem er í mikilli uppbyggingu.
Bæjarráð samþykkti samhljóða að gera viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð 3,4 milljónum króna vegna málsins.