„Nemendur eru uggandi yfir sinni stöðu“

Frá fundinum í morgun. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fjölmenni var á fundi í FSu í morgun þar sem skólameistari ræddi við nemendur um fyrirhugað kennaraverkfall í skólanum.

„Nemendur eru uggandi yfir sinni stöðu. Sum eru stressuð og hafa áhyggjur, sérstaklega þau sem eru að útskrifast núna um jólin og í vor. Ég skil það mjög vel. Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi,“ segir Soffía Sveinsdóttir, skólameistari FSu, í samtali við sunnlenska.is.

„Fundurinn gekk mjög vel. Ég var ánægð með hvað margir mættu því fundarboðið var sent með stuttum fyrirvara eða eftir hádegi í gær. Ég hefði viljað hafa meiri upplýsingar en það er líka mikilvægt að tala við nemendur þó að maður hafi ekki upplýsingarnar.“

Mikilvægt að ýta ekki undir óþarfa kvíða
Soffía minnti nemendur á fundinum að halda ró sinni. „Ég legg áherslu á að við séum ekki að ýta undir kvíða og streitu, vonandi leysist deilan áður en til verkfalls kemur. Við verðum að anda rólega. Ekki búa til óþarfa kvíða, við glímum við verkfallið þegar að því kemur – ef að því kemur.“

„Við erum auðvitað farin að hugsa mögulega sviðsmyndir en það er mikil óvissa í þessu,“ segir Soffía.

Sigursveinn Sigurðsson, aðstoðarskólameistari, tekur undir orð Soffíu og hvetur nemendur til að halda sínu striki. „Það er mikilvægt að halda taktinn fram að verkfalli, halda áfram að sinna náminu.“

Í hádeginu í gær tilkynnti Kennarasamband Íslands að verkfall hafi verið samþykkt í átta skólum víðs vegar um landið. Fjölbrautaskóli Suðurlands er einn þeirra. Fyrirhugað verkfall hefst 29. október ef ekki nást samningar fyrir þann tíma. Um tímabundið verkfall er að ræða, frá 29. október til 20. desember. Eingöngu félagsmenn í KÍ fara í verkfall, ekki starfsfólk í öðrum stéttarfélögum.

Sigursveinn og Soffía ræddu við nemendur í morgun. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinHitti Jesú við eldhúsborðið
Næsta greinDagur áfram hjá uppeldisfélaginu