Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, útnefndi í dag nemendur í Hvolsskóla á Hvolsvelli Varðliða umhverfisins.
Viðurkenninguna fá nemendurnir fyrir mælingar sem sjöundu bekkingar hafa gert á jökulsporði Sólheimajökuls frá árinu 2007 með hjálp GPS punkta. Mælingarnar eru merktar inn á mynd svo hægt sé að sjá og sýna öðrum hvernig jökullinn hopar ár frá ári.
Í umsögn dómnefndar segir að um sé að ræða metnaðarfullt verkefni sem geri nemendum kleyft að rannsaka og upplifa á eigin skinni hvað áhrif loftslagsbreytingar hafa á nærumhverfi þeirra. „Í verkefninu takast nemendur á við raunhæf viðfangsefni, læra vísindaleg vinnubrögð um leið og það sýnir að grunnskólanemendur geta auðveldlega stundað rannsóknir á umhverfinu á einfaldan hátt.“
Kuðunginn, umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, var einnig veittur í dag og kom hann í hlut Kaffitárs fyrir öflugt umhverfisstarf fyrirtækisins allt frá stofnun þess árið 1990.