Nemendur í 5. og 6. bekk Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi hlutu í dag útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir verkefnið Breytum rétt – mengum minna.
Viðurkenningin er ein þeirra sem umhverfis- og auðlindaráðherra veitti í dag, á Degi umhverfisins.
Verkefni Kerhólsskóla gengur út á að nemendurnir safna saman smáraftækjum á borð við farsíma og tónhlöður í sérstök safnílát sem þeir hafa komið fyrir á áberandi stöðum í sveitarfélaginu. Nemendurnir hafa kynnt verkefnið með ýmsum hætti fyrir sveitungum sínum, s.s með því að skrifa í fréttablöð, útbúa kynningu fyrir samnemendur og bækling sem var dreift á netinu og í fréttablað sveitarfélagsins.
Fyrir raftækin fæst svo skilagjald sem renna mun óskipt til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Segir í umsögn valnefndar að með verkefninu Breytum rétt – mengum minna hafi nemendur í Kerhólskóla vakið athygli á neyslu og jafnvel ofneyslu á smáraftækjum og lagt sitt af mörkum til þess að gera öllum í samfélaginu kleift að skila þeim af sér á sem bestan hátt fyrir umhverfið.
Auk nemendanna í Kerhólsskóla fengu nemendur í Melaskóla í Reykjavík og Patreksskóla á Patreksfirði útnefningu sem Varðliðar umhverfisins.
Íslenskir fjallaleiðsögumenn hlutu Kuðunginn fyrir að vera brautryðjendur í náttúruvænni ferðamennsku, knúnir áfram af áhuga fyrir náttúrunni og umhyggju fyrir umhverfinu.
Þá undirrituðu Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, viðauka við núgildandi samning um verkefnið Skóla á grænni grein, sem Landvernd stýrir, en það er einnig þekkt sem Grænfánaverkefnið.