Eins og sunnlenska.is greindi frá fyrr í dag brautskráðust 34 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn laugardag. Svo virðist sem aðeins einn nemandi hafi skráð sig úr námi vegna kennaraverkfallsins sem stóð yfir í mánuð á haustönninni.
Soffía Sveinsdóttir, skólameistari, segir í samtali við sunnlenska.is að mögulega hafi fleiri hætt án þess að láta skólann formlega vita.
„Alls voru 47 nemendur óvirkjaðir milli haust- og vorannar vegna skorts á vali. Það er svipað og fyrri haustannir og alls konar ástæður fyrir því, eins og til dæmis flutningar eða að nemendur væru að skipta um skóla. Einhverjir þessara nemenda höfðu svo samband og eru ekki hættir heldur gleymdu einfaldlega að velja á sínum tíma. Svo ekki liggur endanlega fyrir hversu margir hættu eingöngu út af verkfallinu,“ segir Soffía.
Námsárangur betri en árið áður
Soffía nefnir einnig að það sé áhugavert að færri einingar töpuðust núna en á síðustu haustönn. Í annál Sigursveins Sigurðssonar, aðstoðarskólameistara FSu, sem hann flutti á útskriftinni, kom meðal annars fram að nemendur í dagsskóla lögðu undir 30.305 einingar við upphaf annar og við lok hennar höfðu nemendur staðist 24.984 einingar.
„Þetta táknar að 17,6% eininga höfðu tapast á önninni. Til samanburðar má geta þess að haustið 2023 töpuðust 19,4% eininga. Námsárangur í dagskóla, samkvæmt þessum tölum, er því nokkuð betri en síðastliðna haustönn. Einingatap tengist því til dæmis að nemendur standast ekki námsmat eða að þeir hverfa frá námi af ýmsum ástæðum fyrir lok annar,“ segir í annál Sigursveins.
Nemendur staðráðnir í að klára önnina
Að sögn Soffíu hefur kennslan gengið vel eftir að verkfallinu lauk 29. nóvember. „Nemendur voru lang flestir staðráðnir í að klára önnina. Kennarar sýndu snerpu og útsjónarsemi við að skipuleggja lok annar. Það var engin spurning að nemendur fundu fyrir stressi og álagi, eins og annað starfsfólk FSu, en almennt mættu nemendur þessari áskorun með jákvæðni.“
„Helstu áskoranir hjá öllum var að skipuleggja sig upp á nýtt á þessum árstíma, þegar fólk er venjulega að undirbúa jól og frí. Það tókst ótrúlega vel með sveigjanlegum vinnubrögðum. Það var auka álag hjá öllum á þessum tíma, en allir ákveðnir í að láta hlutina ganga upp.“
Mikil áskorun fyrir nemendur og kennara
Soffía segir að það hafi verið mikilvægt fyrir alla að hafa brautskráninguna sem fyrst þannig að verkfallið kæmi ekki í veg fyrir að nemendur gætu haldið sínum framtíðarplönum.
„Við náðum því að útskrifa nemendur núna án þess að hamla frekara námi þeirra nú á vorönn, til dæmis hófu að minnsta kosti tveir nám erlendis nú í byrjun janúar. Fyrir kennara var mikil áskorun að skera niður námsefni en um leið tryggja að nemendur væru vel undirbúnir undir framhaldsáfanga.“
Mikil gleði ríkti hjá starfsfólki skólans, jafnt sem nemendum, þegar verkfallinu lauk. „Það var frábær tilfinning að fá nemendur aftur í skólann. Það lá bæði gleði og samheldni í loftinu fyrstu dagana eftir að nemendur og kennarar snéru aftur. Andrúmsloftið var ótrúlega gott, miklu betra en ég þorði að vona.“
Óttast ekki varanlegar afleiðingar verkfallsins
Soffía er bjartsýn á framhaldið og óttast ekki varanlegar afleiðingar verkfallsins nema í algjörum undantekningartilfellum.
„Verkfallið bitnaði mest á þeim sem síst skyldi en sagan hefur sýnt að yfirleitt hafa afleiðingar ekki verið varanlegar. Það væri þá helst ef nemendur flosnuðu upp úr námi. En miðað við okkar tölur, þá á það við í algjörum undantekningartilfellum.“
„Hins vegar upplifðu margir stress og áhyggjur, til dæmis prófstress. Skammur undirbúningstími olli kvíða og óöryggi hjá sumum nemendum. En við erum með frábæra nemendaráðgjafa, bæði námsráðgjafa og félagsráðgjafa, sem beinum nemendum til,“ segir Soffía að lokum.