„Okkur þykir alveg ótrúlega leiðinlegt að smit hafi komið upp í búðunum. Það var búið að vera svo gaman hjá nemendunum í vikunni og þeim liðið alveg frábærlega vel á Laugarvatni. Engum er um að kenna að svona fór. Við erum búin undir aðstæður eins og þessar og vitum að þær geta áfram komið upp í samfélaginu,‟ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.
Hann þurfti að senda rúmlega 70 nemendur 9. bekk grunnskóla heim í gær eftir að einn nemandi greindist með COVID-19 smit í búðunum. Nemendurnir komu í búðirnar á mánudag og hefðu að öllu óbreyttu farið heim um hádegisbil í dag. Skólastjórnendur og foreldrar nemendanna hafa verið upplýstir um málið.
Sigurður segir að samstundis hafi verið gripið til varúðarráðstafana og málið unnið í nánu samráði við Almannavarnir og yfirvöld. Þegar niðurstaða úr COVID-prófum lá fyrir í gærkvöldi var tekin ákvörðun um að senda alla nemendur heim. Unnið er að ítarlegri sótthreinsun húsnæðis ungmennabúðanna. Allt starfsfólk þeirra þarf í kjölfarið að fara í smitgát og PCR-próf.
„Fyrst og fremst er þetta afar leiðinlegt fyrir smitaða nemandann. Ég vona að hann finni ekki mikið fyrir áhrifum smitsins. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að gæta að sóttvörnum okkar og hreinlæti eins og við gerum alltaf,‟ segir Sigurður.