Nemendur stikuðu Klausturstíg

Efstu bekkir grunnskólans á Kirkjubæjarklaustri hafa í vor tekið þátt í að stika og setja upp fræðsluskilti á Klausturstíg en það er göngustígur sem liggur við Kirkjubæjarklaustur.

Í fyrra skiptið stikuðu nemendurnir þann hluta leiðarinnar sem liggur yfir Klaustursheiði frá Systrafossi að Kirkjugólfi og settu upp fræðsluskilti þar sem upplýsingar eru um ýmis jarðfræðileg, sagnfræðileg og líffræðileg atriði sem á vegi fólks verður. Í seinna skiptið fóru nemendurnir niður í Landbrotshóla og endurnýjuðu þar stikur á þeim hluta stígsins sem liggur frá sumarbústaðasvæðinu við Hæðagarðsvatn að Gluggaskeri og þaðan að Hunkubökkum.

Stikurnar sem fyrir voru á þessum kafla höfðu margar hverjar brotnað í vetur eða horfið af dularfullum ástæðum. Ljóst var að nemendurnir höfðu bæði gagn og gaman af þessum ferðum enda margt að sjá og bjóða Landbrotshólarnir upp á marga leyndardómsfulla staði sem gaman er að skoða. Enn á eftir að yfirfara stikur á leiðinni frá Hunkubökkum að Kirkjubæjarklaustri en þar sér búfénaður og frostverkun til þess að líta þarf með stikunum á hverju vori.

Í heildina er Klausturstígur um 20 km löng gönguleið þannig að mögulegt er að ganga stíginn allan á góðum degi en einnig er hægt að fara hann í styttri áföngum.

Við upplýsingamiðstöðina á Klaustri verður kort af stígnum en einnig hefur klasinn Friður og frumkraftar látið útbúa snjallleiðsögn um stíginn sem hægt er að ná í gjaldfrjálst í gegnum smáforritið Locatify Smartguide bæði fyrir Android og iPhone/iPad. Forritið virkar þannig að með því að hafa kveikt á GPS tækinu í símanum eða spjaldtölvu þá les snjalltækið upp upplýsingar á ákveðnum stöðum á leiðinni og eykur þannig upplifun og fræðslugildi.

Styrkir til gerð þessa verks hafa komið frá Vinum Vatnajökuls, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Forráðamenn Kötlu jarðvangs og Friðar og frumkrafta vilja koma á framfæri kærum þökkum til nemenda 8., 9. og 10. bekkjar, Jóhanns Gunnars Böðvarssonar íþróttakennara og sveitarstjórnar Skaftárhrepps fyrir gott samstarf.

Fyrri greinRepjuolíutankur við MS Selfossi
Næsta greinGuðfinna Gunnars: Æ ❤ Árborg