Netaveiðibændur á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár munu áfram stunda netaveiði og hyggjast kæra ákvörðun aðalfundar Veiðifélags Árnesinga um netaveiðibann til Fiskistofu.
Rétthafar netaveiði á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár funduðu í síðustu viku og ræddu þá stöðu sem upp er komin eftir að aðalfundur Veiðifélags Árnesinga samþykkti í apríl að aðeins yrði veitt á stöng á svæði félagsins sumarið 2019.
Í tilkynningu frá rétthöfum netaveiði segir að aðalfundurinn hafi verið „mjög sérstakur“. Netaveiðibændurnir voru sammála um að fyrstu viðbrögð væru að beina kæru til Fiskistofu og hefur hópurinn fengið til liðs við sig Óskar Sigurðsson hrl. frá LEX lögmannsstofu til að vinna að málinu.
Í yfirlýsingu sem netaveiðibændurnir samþykktu á fundi sínum segir að ákvörðun aðalfundarins sem haldinn var í apríl sé ólögleg og ómerk.
„Netaveiði hefur verið stunduð á vatnasvæðinu frá öndverðu, hefur lögvarin rétt og verður ekki af bændum tekin bótalaust, frekar en önnur hlunnindi eða eignaréttindi. Netaveiðibændur munu því áfram stunda netaveiði samkvæmt þeim lögum og reglum sem um hana gilda,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.