Ný Nettó verslun við Eyraveg 42 á Selfossi verður opnuð næstkomandi föstudag. Þetta er önnur verslun Nettó á Selfossi, en Nettó mun áfram starfrækja verslun að Austurvegi 42.
Upphaflega stóð til að verslunin myndi opna síðastliðið sumar en vegna tafa hjá framkvæmdaraðila opnar verslunin ekki fyrr en nú. Óhætt er að segja að Selfyssingar og nærsveitungar hafi beðið með mikilli eftirvæntingu eftir nýju Nettó versluninni en mikil vöntun hefur þótt vera á matvöruverslun í þessum hluta Selfossbæjar.
„Við höfum unnið hörðum höndum að opnun Nettó Eyravegi og erum gríðarlega stolt af því að geta opnað þessa glæsilegu verslun á Selfossi. Þó að bílaplanið sé ekki alveg klárt og enn vanti aðila í verslunarhúsnæðið með okkur, þá tökum við samt á móti öllum viðskiptavinum með bros á vör og í sannkölluðu jólaskapi. Við hlökkum til að fá Selfyssinga inn í þessa fallegustu verslun Suðurlands,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.