Nettó opnar á Selfossi

Samkaup hf. hefur tekið Austurveg 42 á Selfossi á leigu og hyggst opna Nettóverslun þar í kringum páska.

Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í morgun.

Nettó er lágvöruverðsverslun og búðin á Selfossi verður sú tíunda á landinu en sjö búðir eru á landsbyggðinni og þrjár á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum spenntir fyrir þessu svæði og þekkjum það vel enda rekum við verslanir á Selfossi, Laugarvatni og Flúðum. Það eru litlar búðir en við finnum vel fyrir mannfjöldanum á svæðinu og Selfoss dregur að sér mikinn fjölda sem miðstöð þjónustunnar á Suðurlandi,“ sagði Ómar.

Rekstur Samkaups úrvals á Selfossi verður óbreyttur en Ómar sagði að ekki væri orðið ljóst hversu margir starfsmenn myndu starfa í nýju versluninni.

Von er á tilkynningu frá Samkaupum í dag þar sem nýja verslunin verður kynnt.

Fyrri greinGamlar myndir úr Garðyrkjuskólanum
Næsta greinLágt verð og mikið vöruúrval