Landsnet hefur flutt stálturna og annað viðgerðarefni að tengivirkjum fyrirtækisins við Búrfell og Sultartanga til að auka viðbragðsgetu og stytta viðgerðartíma, komi til bilana á háspennulínum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu vegna eldgoss í Bárðarbungu.
Fjórir vöruflutningabílar með neyðarbúnað til fyrstu viðbragðsaðgerða lögðu af stað frá lager Landsnets á Geithálsi í morgun með stefnu á Búrfell og Sultartanga. Á vögnunum eru stálturnar ásamt fylgibúnaði, tréstaurar og þverslár sem komið verður fyrir við tengivirki Landsnets við Sultartanga til að flýta fyrir viðgerð ef til þess kæmi að 220 kílóvolta (kV) háspennulínur Landsnets á þessu svæði gæfu sig í hamfaraflóði af völdum eldgoss.
Einnig voru fluttar stálsúlur að tengivirkinu við Búrfell sem notaðar verða til framhjátengingar 220 kV Sultartangalínu 2 yfir í 220 kV Búrfellslínu 3 við tengivirki Landsnets í Búrfelli, ef þess gerist þörf. Undirstöður, stagfestur og stagteinar eru þegar til staðar á svæðinu frá því að tengingin var notuð þegar tengivirkið í Búrfelli var í byggingu.
Þá fóru tveir vöruflutningabílar í gær með tvo gáma með neyðarturnum og allskyns fylgihlutum að tengivirki Landsnets við Sultartanga. Á lagernum á Geithálsi eru einnig tiltækir til flutnings leiðari, einangrarar, stagvír og annað fylgiefni sem þörf gæti orðið fyrir.