Neyðarlínan tilkynnti lögreglu ekki bílslys

Það óvenjulega atvik varð í dag að Neyðarlínan gleymdi að láta lögregluna á Selfossi vita að bíll hefði farið út af veginum í Þjórsárdal. Ökumaðurinn fannst látinn.

Neyðarlínan kallaði út sjúkrabifreið í forgangsakstur en það var fyrir fyrirspurn sjúkraflutningamanna sem mistökin uppgötvuðust.

Lögreglan á Selfossi staðfestir þetta á mbl.is en tekur sérstaklega fram að atvikið feli ekki í sér lögbrot né heldur leiki vafi á því hvort bjarga hefði mátt manninum ef lögreglan hefði orðið fyrri til á vettvang.

Málið er í rannsókn en lögregla segir að leiða megi líkur að því að maðurinn, sem er um áttrætt, hafi látist undir stýri við hægan akstur, en hann var látinn þegar að var komið. Hann fór út af veginum við Gaukshöfða í Þjórsárdal.

Lögreglan lítur málið alvarlegum augum en mistökin uppgötvuðust sem fyrr segir þegar sjúkraflutningamenn voru komnir á vettvang og þá farið að lengja eftir lögreglunni.

Ekki er hægt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.

Fyrri greinSmygluðu sterum í bíl inn á Hraunið
Næsta greinGengið í Gránunes