Almannavarnastig vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur verið lækkað frá neyðarstigi niður á óvissustig.
Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að langur tími er nú liðinn án gosvirkni og vísindamenn fullyrði að nýr atburður í jöklinum hefði greinilegan fyrirvara.
Eldgosið í Eyjafjallajökli hófst 14. apríl sl. og voru síðustu merki um eldgos í byrjun júní. Vegna þekktrar sögu eldfjallsins um löng hlé á umbrotum var ekki talið óhætt að aflétta viðbúnaði strax.
Frá því snemma í sumar hefur þó smám saman verið dregið úr viðbúnaði þó að mörg verkefni hafi verið unnin áfram. Má þar nefna aukna vöktun, viðbrögð vegna aurflóða og mat á tjóni.
“Óvissustig er lægsta almannavarnastigið og með því að hafa það í gildi er verið að tryggja að áfram verið vöktun og eftirlit með þeim þáttum sem snúa að framvindu í eldfjallinu sem og þeim atriðum sem snúa að afleiðingum gossins svo sem aurflóðum og öskufoki, sem enn eiga sér stað,” segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.