Niðurskurður jarðræktarstyrkja gæti sett strik í reikninginn

Að sögn Sigurðar Ágústssonar, bónda í Birtingarholti í Hrunamanna­hreppi, hefur það komið á daginn sem menn grunaði að kornuppskera ársins væri góð og gæði kornsins með miklum ágætum.

,,Þetta lítur allt vel út og ekki verður annað sagt en að uppskeran sé góð. Ef þróun á heimsmarkaðsverði verður áfram sú að korn sé að hækka þá má vera að hægt sé að auka uppskeruna á næsta ári en veðurfarið er orðið okkur hagstætt. Það eru hins vegar blikur á lofti þar sem horfur eru á að jarðræktarstyrkir vegna kornræktar verði skornir af. Það væri mjög slæmt ef af verður,“ segir Sigurður.

Þetta kæmi sér mjög illa fyrir minni bændur. Styrkurinn hefur numið um 20.000 kr. á fyrstu hektarana en 10.000 krónum upp í 40 hektara. Sigurður bendir á að kornrækt í öllum nágrannalöndum sé styrkt verulega og þó væru öll skilyrði til ræktunar mun betri. Þessi styrkur hefði lítið sem ekkert hækkað í mörg ár og það væri áfall ef hann væri nú skorinn af.

,,Það er hætt við því að kornrækt minnki á ný í landinu ef þetta verður að veruleika,“ sagði Sigurður.

Fyrri greinJón Daði til reynslu hjá AGF
Næsta greinKvikmyndahátíðin Riff í Pakkhúsinu