Ábúendur Vesturhúsajarða í Dyrhólahverfi hafa sent frá sér fréttatilkynningu í kjölfar dóms Hæstaréttar um eignarhald Dyrhólaeyjar sem féll í síðustu viku. Niðurstaða Hæstaréttar kemur þeim mjög á óvart.
Tilkynningin er svohljóðandi:
Fyrir tæpu ári síðan kvað Héraðsdómur Suðurlands upp dóm í málinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Vesturhúsajarðir ættu ótvírætt helmingshlut á móti Austurhúsajörðum í Dyrhólaey. Þar var ítarlega fjallað um öll helstu efnisatriði og gögn sem fram komu af hálfu málsaðila og viðurkennt að þau gögn sýndu fram á jafnan eignarrétt beggja, allt frá fornu fari til okkar daga.
Í dómi Héraðsdóms var staðfest að ríkulegar heimildir eru fyrir því að Austurhús og Vesturhús voru jafnrétthá hvað Dyrhólaey varðar í meir en 500 ár. Hæstiréttur einblínir hinsvegar á landamerkjabréf frá árinu 1890, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á ófullkomleika þeirra, og tekur ekki mið af eldri dómum um eignarréttinn og upplýsingum um jafnan rétt allra jarða innan Austur- og Vesturhúsa til Dyrhólaeyjar sem fram koma í jarðalýsingum með fasteignamötum fyrir og eftir þann tíma. Jafnframt sneiðir Hæstiréttur hjá því að fjalla um ítarlega gagnrýni Héraðsdóms á umrædd landamerkjabréf. Hæstiréttur gerir lítið úr því að eigendur Austurhúsajarða hafi í verki viðurkennt eignarrétt Vesturhúsajarðanna á hálfri eynni á síðustu öld, m.a. með þátttöku í friðun Dyrhólaeyjar og stofnun Dyrhólahafnar og í allan stað sambærilegri nýtingu hvors hóps fyrir sig á eynni.
Tilgangur landamerkjalaga frá þeim tíma, sem Hæstiréttur byggir á, var að koma í veg fyrir deilur. Framkvæmd þeirra hjá yfirvaldi hvað Dyrhólaey áhrærir var hinsvegar þeim annmarka háð að þinglýsa tveimur óljósum og ósamhljóða landamerkjabréfum. Þá ber einnig að hafa í huga að alla okkar sögu til tuttugustu aldar lýstu menn aðeins eign á því sem þeir sáu að gat verið einhvers virði, og því voru beit, fugl og reki tíðum nefnd sem vottur beinnar eignar.
Svo virðist sem tilraun áhrifa- og auðmanna á ofanverðri 19. öld til eignaupptöku á Dyrhólaey sé með dómi Hæstaréttar viðurkennd, m.a. á þeirri forsendu að óréttlætinu hafi ekki verið nógu kröftuglega mótmælt í 120 ár, og skuli því standa.
Rétt er að benda á að þrátt fyrir dóminn stendur óbeinn eignarréttur Vesturhúsajarða á Dyrhólaey óhaggaður. Viðurkennt er að Vesturhúsajarðir eigi jafnan rétt á við jarðir Austurhúsa til nytja á Dyrhólaey. Eigendur og ábúendur Vesturhúsa, sem borið hafa hitann og þungann af verndun eynnar á undanförnum áratugum og hafa einir aðila lagt fram heildstæðar áætlanir um sjálfbæra nýtingu eynnar, munu hér eftir sem hingað til kalla eftir ábyrgri afstöðu Austurhúsa og annarra til umgengni um land og lífríki á svæðinu.